<$BlogRSDURL$>

mánudagur, mars 22, 2004

Ég hef ekki komið síðan í threesome-inu áðan...

Bjórinn kældur


Helgin er að baki og líka þessi fína helgi... Á laugardaginn átti ég nottla afmæli og hélt uppá það með öllu tilheyrandi og splæsti í partý hérna á Krókatúninu. Gestirnir voru að mestu leiti Íslendingar en glöggir menn komu auga á nokkra Norðmenn inn á milli, og svo var líka einn hálf Englendingur... Gleðin byrjaði rólega en tók fljótlega flug og var glaumurinn ógurlegur á tímabili. Eftir að hlaupstaupin höfðu verið borin fram var ekki aftur snúið.

Lúðvík ber fram hlaupstaupin


Sumir gengu meira að segja það langt að syngja í karaoke. Einnig voru ýmsir aðrir samkvæmisleikir stundaðir. Svo voru hin geypivinsælu Shakeshots (kinnasveiflan) í hávegum höfð. Sumir voru ekki alveg með á nótunum á meðan aðrir blómstruðu á þessum vettvangi.

Sveifla hjá kallinum


Eftir að allir höfðu hrist flösuna úr hárinu og slett munnvatni upp um alla veggi var haldið á Breiðini til þess að tjútta við vini og vandamenn við undirleik frá SSSól, já gömlu mennirnir stóðu sig bara vel. Fljótlega kom í ljós hver hefði verið valin Fegurðardrottning Vesturlands, en það var hún Ragnheiður Björnsdóttir (en hún er einmitt systir hennar Bergþóru sem er konan hans Robba bróður)

Ragnheiður Björnsdóttir, Fegurðardrottning Vesturlands 2004


Stemmari á ballinu


Ballið gekk með ágætum og voru margir drykkjumennirnir þar saman komnir, þar á meðal Sigurður sótsvarti. Eftir mikið djamm og djús (og myndatökur, hátt í 200 stk.) var svo haldið aftur á Krókatúnið og þá í smá norskukennslu, og var það hann Gjermund (sagt Jermun) sem sá um það allt. Eftir það var mannskapurinn orðinn lúinn og héldu allir til sinna heima (nema Guðrún sem crashaði hjá okkur) En áður en við (ég og Sigga) fórum að sofa vildi Sigga nú fá sér að borða og sendi mig í eldhúsið til elda þar innbakað svín í osti (grillaða skinkusamloku) þegar ég loks kom með herlegheitin inní rúm var Sigga hins vegar löngu sofnuð og rænulaus. Ég lagðist uppí rúmið með diskinn og borðaði mína samloku, eftir það lagðist ég til hvílu... en eftir ca. tvo tíma vaknaði ég aftur í öllum fötunum og ofan á samlokunni hennar Siggu, gerði nú ekki mikið mál úr heldur fór bara úr fötunum, fjarlægði samlokuna og hélt svefni mínum áfram.

Draslið...


Sunnudagurinn fór að mestu leiti í að taka til eftir partýið (á meðan Sigga var á leiklistarnámskeiðinu) Og svo um kvöldið var komið að fyrsta matarboðinu í Matarklúbbnum Gýpu og var það haldið í Stúdentagörðunum hjá Svandísi og Olla. Þau elduðu þessa dýrindis kjötbollur og spaghetti. Þau brydduðu uppá skemmtilegum leik og gekk út á það að maður dró miða með nafni einhvers (sem var í matarboðinu) og átti og leika hann á meðan maturinn var. Byrjaði sem saklaus leikur, svo komst Gummó í miðana og þá var fjandinn laus. Og eftir kvöldið voru allir komnir með leynilegan kynlífsfélaga, threesomefélaga og annað sem ekki er óhætt að nefna hér... Svo átti Gummó nokkra gullmola þetta kvöld eins og t.d.
“Þú mátt eiga “bollurnar” mínar Tryggvi...”
“Ég hef ekki komið síðan í threesome-inu áðan...”

Olli & Svandís kveðja matargestina


Sei sei já og jamm jæja svei mér þá, semsagt fínast helgi, og það er greinlegt að þegar maður er kominn á þennan aldur þá er maður bara nokkuð cool held ég...

Lag dagsins: White Stripes - I Just Don't Know What To Do With Myself


laugardagur, mars 20, 2004

23 ÁRA!


xxx



Ég á afmæli í dag, ég á afmæli dag, ég á afmæli sjálfur, ég á afmæli dag!

Í dag á ég afmæli, í dag er gleðin!!!

Lag dagsins: Hemmi Gunn - Einn dans við mig

föstudagur, mars 19, 2004


Bruce Willis er 49 ára í dag


Jæja krakkar mínir... ég ákvað að hafa Bruce Willis sem upphitunarafmælisbarn dagsins fyrir morgundaginn, og hann þáði það boð mitt og satt best að segja þá varð hann nú klökkur þegar honum bauðst það, og hann þakkaði kærlega fyrir sig.

En já á morgun gerðist það, það sem hefur ekki gerst áður, ég verð semsagt 23 ára og það í fyrsta sinn, já sona er heimurinn ótrúlegur... og að því tilefni munu hingað á Krókatúnið streyma múgur (margmenni kemst því miður ekki vegna mikill anna). Þess má til gamans geta að einnig verður fagnað 1 árs afmæli búsetu á Krókatúninu. Tekist verður á í mikilli drykkju og almennum fíflalátum. Aldrei að vita að hinn sívinsæli samkvæmisleikur "Karaoke" verði stundaður þegar líða fer á kvöldið. Einnig er orðið á götunni að hin óútreiknanlegu hlaupstaup skjóti upp kollinum og geri allt gjörsamalega vitlaust og fljótlega eftir það má búast við að allt fari úr böndunum. En þá verður öllum smalað á súperdansleik með hinni síungu hljómsveit SSSól (hvað eru mörg S í því?) Og Guð má vita hvar fólk endar eftir það...

Á morgun á ég afmæli, á morgun er gleðin!!!

Lag dagsins: Blink 182 - The Party Song

fimmtudagur, mars 18, 2004

Hér á að vera blogg dagsins... en það skrapp saman...

Hvað fáið þið í örlagakökunni?

2 dagar þangað til að ég á afmæli, 2 dagar í gleðina!

Lag dagsins: 200.000 Naglbítar - Brjótum það sem brotnar

miðvikudagur, mars 17, 2004



Olli afmælisbarn



Til hamingju með 24 ára afmælið Oliver Claxton! Þótt maður sé orðin svona gamall þá hættir maður ekkert að leika sér með Mikka mús hanska...
Olli hefur komið víða við... t.d. hér og hér... og hér og jafnvel hér og síðan hér líka

3 dagar þangað til að ég á afmæli, 3 dagar í gleðina!

Lag dagsins: Claxtonbury Band - Keep On Rockin in the Free World

þriðjudagur, mars 16, 2004



prump...

Nú þarf ég að fara að ræða við köttinn minn undir fjögur augu, fyrir nokkru fannst henni mjög sniðugt að koma með lifandi fugla inn til okkar, og voru það þá aðallega þrestir (hún er svo klár, því að hún veit að millinafnið mitt er Þröstur). Nema hvað hún hætti því nú fljótlega, en núna grunar mig að hún hafi fært okkur enn eina gjöfina, því að í gær þegar ég var að taka til og ég tók upp íþróttatöskuna mína þá fann ég frekar vonda lykt, og þefa ofan í töskuna og þvílíkur viðbjóður sem ég fann. Það gat ekki verið svona mikil svitalykt í töskunni enda var hún tóm, en svo tek ég upp spjaldið sem er í botnum og þar blasti við þessi líka steindauða mús og svona vel lyktandi í þokkabót... ooooj....

Guns N' Roses - Greatest Hits

En já fékk í dag með póstinum Greatest Hits diskinn með Guns N' fucking Roses sem ég vann á X-inu í gær, og meira að segja 2 límmiða í kaupbæti, takk fyrir það Matti!

Svo verð ég bara að hrósa nýja sóló disknum, Shadows Collide With People, frá John Frusciante, sem var að koma út,(gítarleikara Red Hot Chili Peppers) en hann fær hjálp m.a. frá þeim Chad og Flea úr RHCP en um söng og gítarleik sér hann sjálfur. Þetta er alveg drullutussu nettþétt plata, hvert lagið á eftir öðru flottara og melódískara, mæli hiklaust með henni fyrir alla unnendur tónlistar :)

Fuck shit asshole...

4 dagar þangað til að ég á afmæli, 4 dagar í gleðina!

Lag dagsins: John Frusciante - Water

sunnudagur, mars 14, 2004

Usssssss.... ég hef nú bara ekki vitað annað eins, Sigga er farinn á fyllerí og það á sunnudagskvöldi, nú þarf ég að fara athuga blóðmagnið í áfenginu á henni. En hún á nú sossum skilið að detta í það, jafnvel á þessu tíma, því hún er búin að standa sig svo vel sem yfirmeikari í Kardimommubænum sem NFFA settur nú upp um þessar mundir. Og svo fer Gummó víst á kostum sem Soffía frænka. Og þær eru semsagt núna í frumsýningarpartýinu.

Vines

Svo verð ég að segja að nýji diskurinn með Vines (sem heitir Winning Days) er bara helvíti góður, ég er búinn að renna aðeins yfir hann og fylgja þeir sínum fyrsta disk vel eftir. Reyndar kemur þessi diskur ekki út fyrr en 23. mars, en þeir sendu mér nú eintak til að hlusta á og dæma hvort þetta væri útgáfuhæft, og jú, ég er búinn að gefa grænt ljós á þetta allt saman.

Albert Einstein

Og það er enginn annar en Albert Einstein sem á afmæli í dag (orðinn 125 ára, eða hefði orðið það) en hann fattaði uppá afstæðiskenningunni sem er E = mc²
En nú er tími til kominn að smella sér í draumalandið...

6 dagar þangað til að ég á afmæli, 6 dagar í gleðina!

Lag dagsins: Vines - Ride

laugardagur, mars 13, 2004

Skellti mér borg höfuðsins í dag til að versla nýja harðann disk í tölvunna því að hún er að fyllast af einhverju drasli og því þarf meira pláss, en nóg um það. Nema hvað að í þessari ferð minni þá fór ég í Limalindina og þegar ég var búinn að labba þar örfá skref tók ég eftir því að annar hver maður (og kona) var með Topp í hendinni... hmmm var þetta tilviljun? Nei svo var nú ekki því að þegar ég var kominn aðeins lengra inn þá var verið að gefa hálfslíters Topp í massavís, og greip einn með mér svona til að vera hipp og cool eins og allir hinir. Og svo fylgdi með happdrættismiði og í vinning var úttekt í Topshop fyrir 100.000 kall takk fyrir, en ég nennti ekki að bíða eftir því að það yrði dregið út. En alltaf þegar einhverjir eru að gefa eitthvað þá eru það gallaðar vörur og í þessu tilfelli var það of mikið gosmagn í flöskunum. Því þegar ég ætlaði að opna flöskuna og svala mér á Toppnum þá frussaðist allt útum allt. En ég tók þessu að sjálfsögðu með jafnargeði (grítti flöskunni inní Debenhams og hljóp öskrandi inná klósett). Þegar ég kom þaðan náði ég mér í aðra flösku og lét á engu bera. Og þá var líka byrjuð tískusýning þar sem keppendur í Ford Stúlkunni 2004 sýndu fatnað (eða ekki) frekar lítið spennandi, alltof þvengmjóar stúlkur fyrir minn smekk, þannig að ég ákvað bara að koma mér út áður en ég gerði eitthvað meira af mér.

Svo fékk ég Jet diskinn minn með póstinum í gær, helvíti góður gripur þar á ferð!

7 dagar þangað til að ég á afmæli, 7 dagar í gleðina!

Lag dagsins: Jet – Are You Gonna Be My Girl?

fimmtudagur, mars 11, 2004

HOT DOG!


Heitur hundur



Jæja loksins hætti að rigna, sem betur fer því að ég var að vinna úti í dag, en það er samt skítakuldi, brrrrrrr....

Frétt dagsins er tvímælalaust það sem Leoncie ásakaði Jón Góða Ólafsson (tónlistarmann) um að hafa reynt að nauðga henni í steggjapartýinu hans þar sem hún var að skemmta árið 1991. Hún sagðist hafa verið að dansa fyrir hann þar sem hann sat á stól úti á miðju gólfi og þá á hann að hafa tekið út typpið á sér og otað að henni, og reynt að nauðga henni eins og hún segir frá... Einmitt, hann ætlaði bara að nauðga henni útá miðju gólfi og allir gestirnir að horfa á á meðan. Djöfull er þetta rugluð kelling og ég skil ekki afhverju er ekki fyrir löngu búið að henda henni úr landi fyrir stanslausar svívirðingar og rasistaásakanir á nánast hvern einasta Íslending, það er bara ekki hægt að lýða svona framkomu til lengdar. Hún er snarklikkuð og með ofsóknarbrjálæði... ussss en nóg um hana.

Hey svo vann ég diskinn með Jet sem heitir Get Born í dag á X-inu (hey og Gunni líka, hann er að verða helvíti góður í þessu líka...)

9 dagar þangað til að ég á afmæli, 9 dagar í gleðina!

og svona í lokin vil ég óska Bobby McFerrin til hamingu með 54 ára afmælið... takk fyrir mig elsku pungarnir mínir

Lag dagsins: Bobby McFerrin - Don't Worry, Be Happy

miðvikudagur, mars 10, 2004

Já nei... eða jú... það væri gaman að taka þátt í Íslandsmótinu í Jalapenjo-áti sem veitingarstaðurinn Uno stendur fyrir (muniði eftir Uno spilinu), þarf að éta 1 kg af Jalapenjo, maður færi nú létt með það!
Annars ekkert að frétta... sama skítaveðrið

10 dagar þangað til að ég á afmæli, 10 dagar í gleðina!

Lag dagsins: Foo Fighters - Darling Nikki

þriðjudagur, mars 09, 2004



Pétur í 70 mín.

Jæja djöfulsins skítaveður er búið að vera síðustu daga... algjört vindrassgat!
Jæja, ég og Trukkurinn skemmtum okkur konungulega í dag í vinnunni. Við vorum staddir uppá Smáraflöt að plasta hús að innan og hefur önnur eins plöstun ekki sést síðan ég veit ekki hvað. Fengum fullt af gestum, t.d. Gjatta og Gutta, svo einhverjir séu nefndir. Ég kom með Gettóblastmaster 2000 FX og gátum við heldur betur poppað okkur, og hlustuðum við á hreint dýrslegan geisladisk sem ég lumaði á og færði Sigurði að gjöf. En þetta var diskurinn Where's My Destiny með stórsnillingunum í Beaten Bishops, og ef þið vitið ekki hverjir það eru þá vitið þið nú ekki neitt.

Frábært að Man. Utd. skulu hafa dottið útúr Meistaradeildinni í kvöld og að Chelsea komst áfram, til hamingju með það Eiður þótt að þú hafir nú ekki fengið að spila en þú veittir gríðarlegan móralskan stuðning á bekknum.

Svo er ein gáta í lokin sem ég heyrði í dag...
Hvað kemur að fjallinu á fjórum fótum, fer upp fjallið á 2 fótum og fer niður fjallið á 3 fótum?

Lag dagsins: Beaten Bishops - Follow My Footsteps

laugardagur, mars 06, 2004

What’s Up Doc?

Pink kemur til Íslands í ágúst


Úffff... ég ætla að byrja að segja frá því að ofur skutlan hún Pink er að koma og halda tónleika fyrir okkur frónverja í Laugardalshöllinni (10. eða 11. ágúst) og enn fleiri bönd hafa heyrst vera á leiðinni en það er allt frekar loðið þannig að ég ætla ekkert að fara neitt frekar út í það...

Afmælisbarn dagsins... Shaquille O'Neal


En þá er komið að manni dagsins, en það er enginn annar en Shaquille O’Neal, en hann er einmitt 32 ára í dag. Það var árið 1992 sem ég fór út til Orlando, en þá var Shaq valinn fyrstur í nýliðavalinu og einmitt af Orlando Magic, og var nýliði ársins og sona, og vakti hann áhuga minn á körfubolta. Hann skipti síðar yfir í Los Angeles Lakers. Og hefur hann unnið þar meistaratitilinn þrisvar sinnum og valinn MVP og allt þetta. En hann hefur líka komið víða við á öðrum sviðum. Hann hefur meðal annars gefið út 4 rappdiska (gaf reyndar út “Best Of” disk eftir fyrstu tvo diskanna), einnig hefur hann leikið í fjölda bíómynd, m.a. Blue Chips, Kazaam og Steel. Hann hefur líka gert tölvuleiki og hannað íþróttafatnað og var aðal auglýsinga fígúra hjá Pepsi og Reebok á sínum tíma. Einnig kann hann svo sannarlega að klæða sig, þannig að hann hefur nóg að gera kallinn og óska ég honum til hamingju með daginn.

Í gærkvöldi skellti ég mér á körfuboltaleik hér á Skaganum (já það er enn körfuboltalið á Skaganum) en þar áttust við heimamenn á móti Fjölni B. Leikurinn var nú frekar bragðdaufur og var ég að vonast til þess að Skaginn myndi nú vinna síðasta heimaleikinn sinn í riðla keppninni (en þeir eru löngu búnir að vinna riðilinn örugglega og komnir í úrslitakeppnina) en semsagt leikurinn fór 89-80 fyrir Fjölni, enda var Alexander Ermolinskij meiddur og þurfti að fara heim úr vinnunni á föstudaginn, eftir að Trukkurinn hafði gert útaf við hann. Ég fékk að eiga snúðinn hans, því að ég kom inná fyrir Alex og kláraði verkefni hans með Sigga.
Reyndar var ég á gestalista á Kerrang tónleikana sem voru á Gauknum í gærkvöldi með Jarcrew, Mínus og einhverjum DJ-um (annar þeirra var víst gítarleikarinn í Skunk Anansie) ég vann miða á X-inu fyrr í vikunni en ég ákvað að fara frekar á leikinn…

Og svo ég haldi mig nú við íþróttafréttirnar, því að Skagamenn unnu KR-inga í gærkvöldi 3-0 í Meistarakeppni KSÍ eru því meistarar meistaranna 2004. Mörkin skorðu þeir Guðjón Sveinsson, Julian Johnsson og Stefán Þórðarson. Leikurinn fór fram í Egilshöllinni.

Jæja þetta fer að verða fínt í bili, er að pæla í að skella mér í partý til Kirkjubrautarfólksins... en á samt ekki von á því að ég nenni á ballið með Á Móti Sól sem er í kvöld á Breiðinni. Sigga er farinn í bæinn að djamma með stelpunum en ég á ekki von á því að hún slái út röltið okkar Poza um síðustu helgi... tútúlú!

Lag dagsins: Shaquille O'Neal feat. Fu-Schnickens - What's up Doc? (Can We Rock)

föstudagur, mars 05, 2004

HERE COMES YOUR MAN!
Pixies koma til Íslands!

Já það er ekki nóg með að maður þurfi að fara á Incubus og svo Placebo í sumar, því að fyrst þarf maður að fara á Pixies!! Já enn eitt stórbandið er á leiðinni til Íslands, því að Pixies, sem fyrir stuttu kom saman á ný eftir 12 ára hlé, munu byrja Evróputúr sinn hérna á klakanum og halda tónleika í Kaplakrika 26. maí. Þannig að rokkárið 2004 stækkar enn, og enginn veit hvar þetta endar allt saman. Sjíbbí!

og svona að lokum... hvar getur maður pantað svona trúð í afmælið sitt...

Lag dagsins: Pixies - Hey!

fimmtudagur, mars 04, 2004

Ég var að aðeins að hugsa (já það kemur líka fyrir) um allt þetta krabbameinsvaldandi dót... samkvæmt öllum rannsóknum getur maður fengið krabbamein af öllu í óhófi og þá oftar en ekki er talað um að maður þurfi að drekka heilt baðkar af gulrótarsafa eða borða heilt baðkar af bláu M&M, eða eitthvað í þeim dúr (þó ekki moll) og þá á maður víst að verða krabbameinssjúklingur á háu stigi. Að svo stöddu vil ég aðeins staldra við og reyna að finna rót vandans, og því er ég með kenningu... ég held að baðkör séu krabbameinsvaldandi... hmmm pæling...

Til hamingju Guðrún með 22 ára afmælið!
Pink fyrir Guðrúnu

Lag dagsins: Pink - Don't Let Me Get Me

miðvikudagur, mars 03, 2004

A je to!



Klaufabárðarnir



Hey hver man ekki eftir þessum snilldar köllum, Klaufabárðunum frá Tékklandi, (komst að því núna á seinni árum að þeir heita víst Pat og Mat) sem voru í sjónvarpinu fyrir sona 15 árum, algjör snilld og ég held að RÚV myndi gera góða hluti með því að endursýna þessa þætti, þeir eru mikið betri en þetta heimska barnaefni sem er núna á dagskrá.

Svo var ég að hlusta á nýja diskinn með Íslandsvinunum í Hundred Reasons sem heitir Shatterproof is Not a Challenge, sem kom út núna 1. mars, og hann er bara nokkuð góður verð ég að segja, mæli með honum ef þið eruð komin með leið á disknum með Leonice... það er klikkuð belja! lesið bara þetta bréf sem hún skifaði Norðurljósum.

Jæja þetta gengur ekki... ble

Lag dagsins: Hundred Reasons - My Sympathy

mánudagur, mars 01, 2004

BJÓRDAGURINN!!!

Loksins er febrúar búinn og kominn mars... og enn einn stórdagurinn er í dag, nefnilega Bjórdagurinn, en það eru hvorki meira né minna en 15 ár síðan að bjórinn var leyfður hér á landi (eða árið 1989) skál fyrir því!

Má ég kynna heiðursmenn dagsins í dag, en það eru Sveini sem er 23 ára í dag (að hugsa sér...) og svo Gunni bróðir, en hann er orðinn háaldraður eða 33 ára (stutt í gráu hárin) og fá þeir sérstakar gleði og stuðkveðjur frá mér. Einnig eiga afmæli Chris Webber hjá Sacramento Kings og söngvarinn Harry Belafonte sem gerði það gott á sjötta og sjöunda áratugnum.

Svo var nottla Óskarinn í gær, eins flestir vita og eins ég hafði spáð þá hirti Lord of the Rings – The Return of the King til sín lang flest verðlaunin eða öll þau ellefu sem hún var tilnefnd fyrir og jafnaði þar með met Titanic (1997) og Ben Hur (1959) í flestum verðlaunum. En hins vegar setti myndin met í að ná 100% árangri eða 11 af 11, fyrra metið áttu Gigi (1958) og The Last Emperor (1987) en þau unnu 9 af 9.
Annars var ég bara mjög sáttur við úrslitin, kannski fyrir utan að ég hefði viljað að Bill Murray hefði fengið Óskarinn í staðinn fyrir Sean Penn. Og svo fór Billy Crystal alveg á kostum sem kynnir, og var byrjunaratriðið geðveikt flott. Einnig var mjög fyndið þegar Jack Black og Will Ferrell tóku lagið um þegar þakkræðutíminn er búinn. Svo að sjálfsögðu stóð Berglind "Icey" Ólafsdóttir sig frábærlega í að afhenda stytturnar og afhenti meðal annars styttur fyrir bestu myndina. Þokkalegast skemmtun sem stóð til hálf 6... úff náði rétt að sofa í klukkutíma áður en ég fór í vinnuna. Annars voru við með smá leik í gangi ég, Sigga og Sindri og spáðum fyrir um öll úrslitin, og voru gefin stig á mjög vísindalegan hátt, mest var hægt að fá 110 stig. Sindri var ekki alveg með á nótum en fékk samt sem áður 84 stig, en við Sigga vorum jöfn með 103 stig hvort, nokkuð gott...


Charlize Theron, Sean Penn, Renee Zellweger og Tim Robbins með Óskarsverðlaunin sín



Annars bið ég ykkur vel að lifa...

Dag dagsins: Harry Belafonte - Banana Boat (Day-O)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?